Innlent

Ljúka meirihlutaviðræðunum í Hafnarfirði fyrir helgi

„Við látum okkur dreyma um að ná að klára þetta fyrir helgi,“ segir Guðmundur Rúnar.
„Við látum okkur dreyma um að ná að klára þetta fyrir helgi,“ segir Guðmundur Rúnar. Mynd/GVA
Meirihlutaviðræður í Hafnarfirði ganga vel að sögn oddvita Samfylkingarinnar. Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi bæjarstjórastólinn. Stefnt er að því að ljúka viðræðunum fyrir helgi.

Vinstri grænir komust í oddaaðstöðu eftir kosningarnar á laugardaginn þegar meirihluti Samfylkingarinnar féll. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin fengu fimm bæjarfulltrúa kjörna í kosningunum og VG einn. Í kjölfarið hófu Vinstri grænir viðræður við Samfylkinguna um myndun nýs meirihluta.

Guðmundur Rúnar Árnason, oddviti Samfylkingarinnar, og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti VG, hafa fundað undanfarna daga um málefnasamning og þá hafa málefnahópar með fulltrúum flokkanna einnig verið að störfum. Guðmundur Rúnar segir að viðræðurnar gangi mjög vel. „Við látum okkur dreyma um að ná að klára þetta fyrir helgi."

Þá segir Guðmundur Rúnar að engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi bæjarstjórastólinn eða önnur embætti. „Við ákváðum að bíða með þá umræðu enda get ég ekki ímyndað mér að það verði einhver vandamál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×