Innlent

Páll Hreinsson: Leiður yfir seinkun skýrslunnar

Páll Hreinsson, formaður Rannsóknarnefndar Alþingis, sagði á blaðamannafundi í morgun að nefndin væri ákaflega leið yfir því að útgáfa skýrslunnar um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna frestist að öðru sinni. Skýrslan átti að koma út næstkomandi mánudag, 1. febrúar.

Henni hefur nú verið frestað öðru sinni, en upphaflegur útgáfudagur samkvæmt lögum um nefndina var 1. nóvember 2009. Nú er stefnan sett á að klára skýrsluna fyrir lok febrúar.

„Í því samhengi bið ég ykkur að minnast þess að meginástæðan fyrir því að starfið hefur tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert er að við höfum í rannsóknum okkar fundið fleiri atriði sem við höfum talið okkur þurfa að gera grein fyrir," sagði Páll. Rannsóknarnefndin hefur tekið formlegar skýrslur af 150 manns og rætt jafnframt við nær 300 manns.

Tryggvi Gunnarsson, nefndarmaður, sagði að rannsóknin hefði reynst mun umfangsmeiri og á margan hátt mun flóknari en búist hefði verið við.

„Ég held að við höfum gert okkur grein fyrir því að þessi mál, til dæmis bara innan stjórnkerfisins, áttu sér margfalt lengri sögu en það að stjórnarformaður Glitnis gekk inn í Seðlabankann og sagði að Glitnir væri í vandræðum."

Rannsóknarnefndin þurfi að draga þessa sögu fram fyrir þingið og almenning, segir Tryggvi. Rannsóknarnefndin hefur víðtækar heimildir til aðgangs að gögnum innan bankanna og stjórnsýslunnar, og kemst í raun fram hjá bankaleynd og þagnarskyldu. Fram kom í máli nefndarmanna í morgun að aldrei hefði eins víðtæk rannsókn átt sér stað á hruni bankakerfis í heiminum öllum.

Tryggi segir það staðreynd að þau fyrirtæki sem komi oftast við sögu í aðdraganda bankahrunsins séu í flestum tilvikum farin af sviðinu eða á útleið - þ.e.a.s. gjaldþrota.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×