Lífið

Handritsstyrkur vegna Davíðs

Baldvin Kári er mjög ánægður með handritsstyrkinn sem hann fékk fyrir myndina Davíð.fréttablaðið/valli
Baldvin Kári er mjög ánægður með handritsstyrkinn sem hann fékk fyrir myndina Davíð.fréttablaðið/valli

Baldvin Kári Sveinbjörnsson, hefur fengið handritsstyrk frá Kvikmyndasjóði Íslands vegna kvikmyndar í fullri lengd sem ber heitið Davíð. „Þetta er eiginlega uppvaxtarsaga fimmtán ára unglingsstráks sem heitir Davíð og er að takast á við kynhneigð sína,“ segir Baldvin Kári, sem steig sín fyrstu spor í kvikmyndagerð í sjónvarpsþáttunum Hjartsláttur á Skjá einum. Núna stundar hann nám í leikstjórn og handritagerð í Columbia-háskólanum í New York. Þar hefur hann lokið þremur árum og býst við að klára tvö til viðbótar. „Þetta hefur gengið vel. Fyrstu tvö árin var ég í mjög stífu prógrammi með mikilli vinnu en núna hefur maður meiri frjálsan tíma í að vinna sjálfstætt að verkefnum.“

Baldvin er að vonum ánægður með handritsstyrkinn en tekur fram að óvíst er hvenær myndin lítur dagsins ljós. „Ég sótti um í sumar og fékk fréttirnar í haust eftir að ég var kominn út. Það er bara frábært að það skuli vera svona styrkjakerfi sem getur stutt við bakið á kvikmyndagerðarfólki.“

Spurður hvort foreldrar hans, kvikmyndagerðarfólkið Sveinbjörn I. Baldvinssonar og Jóna Finnsdóttur, hafi ekki gefið honum góð ráð í gegnum tíðina segir hann þau vera hans helsta hvatningarlið. „Það er gott að eiga hauk í horni hjá þeim.“ -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.