Innlent

Sólheimar í stöðugum árekstrum við kerfið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Reynir Pétur Ingvarsson er líklegast þekktasti íbúi Sólheima. Mynd/ Róbert Reynisson.
Reynir Pétur Ingvarsson er líklegast þekktasti íbúi Sólheima. Mynd/ Róbert Reynisson.
Áhyggjur stjórnar og fulltrúaráðs Sólheima í Grímsnesi af rekstrargrundvelli heimilisins eru meðal annars tilkomnar vegna þess sem þeir telja vera stöðuga tregðu og árekstra í kerfinu. Til dæmis segja þeir að Sólheimar hafi ekki fengið endurmat á þjónustuþörf fatlaðra íbúa í átta ár. Þó séu skýr ákvæði í lögum um að slíkt mat eigi að gera árlega.

Þjónustumatið er ákaflega mikilvægt því það á að vera grundvöllur fjárveitinga. Sólheimar telja sig hafa orðið af verulegum upphæðum af þessum sökum. Forráðamenn benda á að á Sólheimum séu 43 einstaklingar og heimilið fái rétt rúmlega 264 milljónir króna á ári í fjárveitingu.

Annað heimili fyrir þroskahefta sem þjónustar 38 einstaklinga fær 362 milljónir króna. Þarna munar næstum 100 milljónum króna og eru þó fimm fleiri á Sólheimum. Stjórn og fulltrúaráð Sólheima hlakkar ekki til þess að málefni Sólheima verði flutt til Árnessýslu um áramótin. Sex stjórnsýsluúrskurðir eru sagðir liggja fyrir um að sveitarfélagið og félagsþjónusta uppsveita Árnessýslu hafi brotið rétt á fötluðum íbúum Sólheima. Þrátt fyrir úrskurðina neiti sveitarfélagið að uppfylla lagaskyldur sínar.

Rétt er að geta þess að Guðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að hann hafi ekki kynnt sér mál Sólheima. Hinsvegar sé ljóst að heimilið verði ekki lagt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×