Innlent

Byr sakar MP-banka um þjófnað

Margeiri Pétursyni, stjórnarformanni MP-banka, er stefnt fyrir hönd bankans en hann neitar sök í málinu.
Margeiri Pétursyni, stjórnarformanni MP-banka, er stefnt fyrir hönd bankans en hann neitar sök í málinu.
Byr sparisjóður sakar MP banka um að hafa stolið ríflega 300 milljónum króna vegna tveggja og hálfs milljarðs króna kúluláns til félags í eigu Björgólfs Guðmundssonar, segir í frétt RÚV.

Sparisjóðurinn sakar bankann um að hafa stolið upphæðinni eftir að hafa selt sameiginlegt veð fyrir láninu.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn. Í desember 2006 veitti Sparisjóður Vélstjóra einkahlutafélaginu Hansa tveggja og hálfs milljarða króna kúlulán. Eigandi Hansa var Björgólfur Guðmundsson, en það átti meðal annars enska knattspyrnufélagið West Ham.

Þegar Sparisjóður Vélstjóra sameinaðist Byr í desember 2006, fór lánið þangað. Síðar í mánuðinum gerðu Byr og MP-banki með sér svokallaðan aðildarsamning þar sem bankinn eignaðist 40% í lánasamningnum. Helstu veð Hansa fyrir kúluláninu voru hlutabréf í Straumi-Burðarás og Landsbankanum.

Þegar hlutabréfaverð fór lækkandi á vormánuðum 2008 lagði Hansa fram frekari veð í Landsbankanum, og greiddi þar að auki 275 milljónir króna upp í lánið til að koma tryggingarhlutföllum í lag, en fjárhæðin skiptist samkvæmt lánasamningi á milli Byrs og MP-banka. Verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa í Landsbankanum héldu hins vegar áfram að lækka og var því var ákveðið að ganga að þeim í október 2008.

Þá færðust þeir yfir til MP-banka. Samkvæmt stefnunni kveðst sparisjóðurinn hafa fullvissu fyrir því að MP-banki hafi selt umrædd hlutabréf í Landsbankanum fyrir ríflega hálfan milljarð króna, án þess að greiða sparisjóðnum 60% upphæðarinnar eins og honum bar, eða tæplega 317 milljónir króna.

Vísar sparisjóðurinn meðal annars í tölvubréf frá starfsmönnum MP-banka máli sínu til stuðnings. Margeiri Pétursyni, stjórnarformanni MP-banka, er stefnt fyrir hönd bankans en hann neitar sök í málinu. Upphæð kröfunar, auk dráttarvaxta, er um hálfur milljarður króna, segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×