Erlent

Ísraelsk stjórnvöld vilja engu svara

Sáust í öryggismyndavélum Tveir hinna grunuðu á gangi hótelsins þar sem Mahmoud al-Mabhouh var myrtur.nordicphotos/AFP
Sáust í öryggismyndavélum Tveir hinna grunuðu á gangi hótelsins þar sem Mahmoud al-Mabhouh var myrtur.nordicphotos/AFP

Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels, neitar því ekki að ísraelska leyniþjónustan Mossad hafi staðið að morði á háttsettum Hamas-manni á hótelherbergi í Dúbaí í janúar.

Hann segir einungis að ekkert bendi til þess, en viðurkennir um leið að það sé stefna ísraelskra stjórnvalda að svara engu um starfsemi leyniþjónustunnar, hvorki staðfesta né neita neinu.

„Engin ástæða er til að halda að það hafi verið ísraelska leyniþjónustan Mossad, frekar en einhver önnur leyniþjónusta eða annað land er illt bruggar,“ er það eina sem hann vill segja um málið.

Lögreglan í Dúbaí hefur birt myndir, nöfn og vegabréfsnúmer ellefu manna sem lýst er eftir í tengslum við morðið á Mahmoud al-Mabhouh, sem ísraelsk stjórnvöld segja hafa stundað vopna­smygl fyrir Hamashreyfingu Palestínumanna.

Einnig hafa verið birtar myndir af þessu fólki úr öryggismyndavélum frá Dúbaí.

Vegabréf mannanna voru öll evrópsk, sex bresk, þrjú írsk, eitt franskt og eitt þýskt. Bresk og írsk stjórnvöld hafa kannað málið og segjast engin vegabréf hafa gefið út á þessum nöfnum. Þau hljóti að vera fölsuð.

Komið hefur í ljós að nöfn að minnsta kosti sjö vegabréfshafanna eru nöfn á ísraelskum ríkisborgurum, sex sem eru aðfluttir frá Bretlandi og einum sem er aðfluttur frá Bandaríkjunum. Þeir segjast hvergi hafa komið nærri og myndirnar á vegabréfunum eru ekki af þeim, þótt nöfnin og vegabréfsnúmerin stemmi.

„Ég veit ekki hvernig þeir komust yfir persónuupplýsingar mínar, eða hver tók þær,“ segir einn þeirra, Stephen Hodes, og bætir því við að hann sé skelfingu lostinn. „Þetta eru hættuleg öfl.“

Ísraelska leyniþjónustan hefur sætt töluverðri gagnrýni í Ísrael eftir að þetta mál komst í hámæli, einkum fyrir að stofna ísraelskum ríkisborgurum í hættu með því að nota nöfn þeirra til verka af þessu tagi.

Þingmaðurinn Yishrael Hasson, fyrrverandi aðstoðaryfirmaður ísraelsku öryggislögreglunnar Shin Bet, krefst þess að utanríkis- og varnarmálanefndir þingsins taki málið fyrir.

Ísraelska leyniþjónustan Mossad hefur áður verið sökuð um að nota fölsuð skilríki. Árið 2005 báðu ísraelsk stjórnvöld ríkisstjórn Nýja-Sjálands afsökunar eftir að tveir Ísraelar hlutu fangelsisdóm í Nýja-Sjálandi fyrir að hafa reynt að stela nýsjálenskum vegabréfum.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×