Erlent

Gamlir flugkappar minnast árásar

Óli Tynes skrifar
Flugkapparnir við B-25 sprengjuflugvél eins og þeir flugu í árásinni.
Flugkapparnir við B-25 sprengjuflugvél eins og þeir flugu í árásinni. Mynd/AP

Fjórir eftirlifandi flugliðar úr fyrstu loftárás Bandaríkjanna á Japan í síðari heimsstyrjöldinni komu saman um síðustu helgi í tilefni af því að 68 ár voru liðin frá því hún var gerð.

Árásin var með þeim djarfari í stríðinu. Bandaríkjamenn áttu engar flugvélar sem voru nógu langdrægar til þess að fljúga til Japans.

Landvélar með flugmóðurskipi

James Doolittle undirofursti útfærði  þá hugmynd að flytja B-25 sprengjuflugvélar með flugmóðurskipi nógu nálægt Japan til þess að hægt væri að gera loftárás á Tokyo. Hann stjórnaði svo leiðangrinum.

B-25 vélarnar voru hannaðar til þess að athafna sig frá flugvöllum á landi. En með því að gera á þeim ýmsar endurbætur reyndist unnt að fljúga þeim frá flugmóðurskipi.

Bara aðra leiðina

Hinsvegar var ljóst að vélarnar gætu ekki snúið aftur til flugmóðurskipsins og því var ákveðið að nauðlenda lenda þeim í Kína eftir árásina. Flugliðarnir áttu svo að koma sér heim eftir bestu getu.

Þann 18. apríl árið 1942 hófu sextán B-25 vélar sig á loft frá flugmóðurskipinu Hornet og gerðu árásina á Tokyo. Fimm manna áhafnir voru um borð, samtals 80 menn.

Allar lentu svo í Kína utan ein sem lenti í Sovétríkjunum. Ellefu flugliðanna féllu eða voru teknir höndum en hinir komust heim eða allavega innfyrir eigin víglínur með einum eða öðrum hætti.

Jók Bandaríkjamönnum kjark

Sáralitlar skemmdir urðu á Tokyo í árásinni, en það var svosem vitað fyrirfram. Tilgangurinn var aðallega sá að blása baráttukjarki í Bandaríkjamenn sem voru enn sem steini lostnir eftir árás Japana á Pearl Harbour fimm mánuðum áður.

Tilgangurinn var einnig sá að sýna japönskum almenningi framá að hann væri ekki ósnertanlegur í þessu stríði, eins og leiðtogarnir voru óþreytandi að básúna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×