Innlent

Breiðband Símans er barn síns tíma

Margrét Stefánsdóttir
Margrét Stefánsdóttir
Kostnaður við Ljósnetsvæðingu Símans er tæpur milljarður króna. Ljósleiðarinn á að leysa af hólmi breiðbandið, fimmtán ára gamla tækni sem átti þó að vara til framtíðar. Kostnaður Símans við breiðbandið var einnig tæpur milljarður, að sögn Margrétar Stefánsdóttur, forstöðumanns samskiptasviðs Símans.

Margrét segir ástæðurnar fyrir breytingunum þær að breiðbandið sé barn síns tíma og Síminn sjái ekki hag sinn í því að halda því við.

„Breiðbandið er ekki framtíðin. Það var byggt upp fyrir fimmtán árum og það sem menn sáu fyrir sér þá,“ segir Margrét. Í fréttatilkynningu frá Símanum dagsettri 2. maí 2002 segir: „Í framtíðinni verður breiðbandið eitt helsta gagnaflutningskerfi fyrir sjónvarp, útvarp, tölvur og síma, bæði myndasíma og talsíma. Kostir breiðbandsins í flutningi á sjónvarpsefni eru m.a. mikil flutningsgeta, frábær myndgæði og öryggi í sendingum. Með breiðbandinu gefst í framtíðinni kostur á gagnvirku sjónvarpi, þáttasölusjónvarpi, heimabíói eftir pöntunum svo eitthvað sé nefnt.“

Margrét segir breiðbandið hafa verið fína fjárfestingu á sínum tíma. „Menn gátu ekki horft mikið lengra inn í framtíðina. Það var verið að taka mið af þeim endabúnaði sem í þá daga var breiðbandið og er nú ljósleiðarinn.“

Tengja á ljósleiðara inn á 40 þúsund heimili á árunum 2010 og 2011 og hluti breiðbandsins sem lagt var inn á 35 þúsund heimili fyrir um fimmtán árum víkur.

Ástæðan fyrir því að nauðsynlegt er að loka á útsendingar Símans um breiðband þegar ljósleiðara hefur komið fyrir er sú að götuskápar sem hýsa búnaðinn leyfa ekki að ljósnetsbúnaður sé settur samhliða núverandi breiðbandsbúnaði.

Breiðbandið var lagt samhliða lagningu Orkuveitunnar á öðrum lögnum og koparlagningu Símans. Kostnaði varð því að skipta á milli fyrirtækjanna tveggja annars vegar og breiðbandsins og koparsins hins vegar.sunna@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×