Innlent

Starfsmenn Ístaks í Kaupmannahöfn afar ósáttir

Hópur Íslendinga sem vinnur fyrir Ístak í Kaupmannahöfn telur á sér svínað. Talsmaður hópsins fullyrðir að Ístak setji faglærða iðnaðarmenn á verkamannataxta. Aðstoðarframkvæmdastjóri Ístaks segir þetta rangt, kjör séu í fullu samræmi við kjarasamninga.

Þórarinn Sigurjónsson kveðst hafa starfað sem smiður í yfir 20 ár. Hann missti vinnuna fyrir rúmu ári en bauðst nú í haust að fara til Kaupmannahafnar þar sem um 35 Íslendingar starfa nú fyrir Ístak. Hann fór síðan út í byrjun nóvember.

Þórarinn er staddur á Íslandi og segir sig og félaga sína ósátta við starfskjör. „Það er mikill hiti. Ég heyrði í félögum mínum í morgun og þeir voru alveg sjóðandi yfir þessu."

Hvað er það sérstaklega sem mönnum svíður? „Það er náttúrulega að vinna sem fagmenn á verkamannakaupi og líka það að fara að heiman þar sem við búum til vinnu, koma þangað aftur eftir 13-14 tíma og fá borgaða 10 tíma fyrir."

Þarna vísar Þórarinn til þess að það taki mennina tvo og upp í fjórar klukkustundir daglega að komast í og úr vinnu.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Ístaks hefur skilningi á þreytu mannanna vegna ferðatímans, en þeir séu þarna að vinna í stórborg, og umferðarteppur hafi skapast í ófærðinni undanfarið. Hann segir mennina á íslenskum kjörum. Hann segir rangt að faglærðir iðnaðarmenn fái greitt samkvæmt verkamannatöxtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×