Erlent

Lokatilraun gerð um helgina

Leiðtogar minnihlutans Mitch Mc-Connell og John Boehner, forystumenn repúblikana á þingi.nordicphotos/AFP
Leiðtogar minnihlutans Mitch Mc-Connell og John Boehner, forystumenn repúblikana á þingi.nordicphotos/AFP

Demókratar á Bandaríkjaþingi ætla að gera lokatilraun til að koma frumvarpi sínu um umbætur í heilbrigðistryggingum í gegnum þingið um helgina.

Í gær kynntu þeir nýjustu útgáfu fulltrúadeildar þingsins, sem á að kosta ríkissjóð 940 milljarða dala næsta áratug en tryggja 30 milljón manns heilbrigðistryggingar í viðbót við þá sem nú þegar njóta þeirra. Með þessari nýjustu útfærslu á jafnframt að takast að draga úr fjárlagahalla um einn milljarð dala næstu tíu árin.

Repúblikanar eru allir á móti frumvarpinu, en óvíst er að allir demókratar greiði því atkvæði. Margir þeirra hafa áhyggjur af að ná ekki endurkjöri, samþykki þeir álögur á ríkissjóð og umdeild ákvæði um fóstureyðingar.

Báðar deildir þingsins samþykktu frumvarpið í lok síðasta árs, en útgáfa deildanna var ekki samhljóða. Í staðinn fyrir að bera sameiginlega útfærslu undir atkvæði í báðum deildum, þar sem hún yrði nánast örugglega felld í öldungadeild, er hugmyndin núna sú að bera lítt breytta útfærslu öldungadeildarinnar undir atkvæði í fulltrúadeildinni, í þeirri von að koma þannig þessu gamla baráttumáli flokksins í höfn. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×