Innlent

Systkini skipta um hlutverk

Sigrún Björk jakobsdóttir
Sigrún Björk jakobsdóttir
Kristinn Þór Jakobsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ, náði kjöri sem bæjarfulltrúi í sveitarstjórnarkosningunum síðasta laugardag.

Kristinn Þór var nýr í framboði og hefur því þátttöku í stjórnmálum á sama tíma og systir hans, Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, kveður þau. Sem kunnugt er sagði Sigrún Björk af sér sem oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og bæjarfulltrúi í kjölfar kosninganna.

„Við erum fimm systkini og erum öll alin upp við mikla pólitíska umræðu,“ sagði Kristinn Þór og bætti því við að skoðanir systkinanna skiptust nokkuð jafnt eftir hinu pólitíska litrófi.

Kristinn Þór segist hafa verið virkur í Framsóknarflokknum frá árinu 2004 en var nú í fyrsta skipti á lista. Aðspurður hvort hann hefði fengið góð ráð hjá Sigrúnu Björk svaraði hann „Við höfum ólíkar nálganir á málunum og ólíkar skoðanir en við leitum mikið í reynslubanka hvors annars.“

Sigrún Björk sagðist viss um að Kristinn Þór myndi standa sig vel í stjórnmálum en var óviss um hvað tæki við hjá henni sjálfri. Hún ætlaði þó að taka sér frí og ganga á fjöll. - mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×