Lífið

Hilmir Snær fluttur á sjúkrahús í London

Blóðugur uppi á sviði. Hilmir Snær var keyrður með sjúkrabíl á sjúkrahús í London vegna skurðar sem hann fékk á sköflunginn í miðri Faust-sýningu.
Fréttablaðið/Anton
Blóðugur uppi á sviði. Hilmir Snær var keyrður með sjúkrabíl á sjúkrahús í London vegna skurðar sem hann fékk á sköflunginn í miðri Faust-sýningu. Fréttablaðið/Anton

„Þetta reyndist vera aðeins meira en mér sýndist í fyrstu,“ segir Hilmir Snær Guðnason leikari. Vesturport varð að hætta við sýningu á Faust fyrir fullu húsi í Young Vic-leikhúsinu á fimmtudagskvöld þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leikritinu, vegna skurðar sem Hilmir Snær hlaut. Leikarinn vildi halda áfram en Bretarnir sendu hann rakleiðis upp á sjúkrahús í sjúkrabíl þar sem hann varð að bíða í fjóra tíma eftir að fá aðstoð. „Maður saknaði svolítið íslensku slysavarðsstofunnar þá,“ segir Hilmir.

Leikarinn verður merktur Lundúnadvölinni til æviloka því hann er með veglegt ör á sköflungnum. „Þetta kennir manni kannski að vera ekki að dansa of lengi við skrattann og maður verður að fara varlega í kringum þetta hlutverk,“ segir Hilmir, en hann leikur einmitt kölska sjálfan í sýningunni og hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína í breskum fjölmiðlum. Hilmir segist ekki hafa áttað sig á því hversu alvarleg meiðslin voru.

„Ég rak sköflunginn í og eins og allir vita er það rosalega vont. Ég ákvað bara að bíta á jaxlinn og hélt að þetta myndi bara hverfa. Svo tók ég eftir því að fólk var hætt að hlæja að bröndurunum mínum og leit niður. Ég var í hvítum síðum nærbuxum sem voru orðnar rauðar fyrir neðan hné. Þá skrapp ég afsíðis þegar tækifæri gafst og sá þá hvað var á seyði.“

Hilmir upplýsti hins vegar að hann myndi fara á svið strax á föstudagskvöld en skoða aðeins hoppin með leikstjóranum Gísla Erni áður, annað ætti að ganga eðlilega fyrir sig. „Það reynir fremur lítið á þessa vöðva, ég lagast um leið og ég hitna aðeins.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.