Innlent

„Þetta er eins og einhverskonar geðveikrahæli“

Þór Saari.
Þór Saari. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
„Það gengur ekki að hafa tugþúsundir manna niðri á Austurvelli öskrandi á Alþingishúsið og kastandi drasli í það. Þetta er ekki siðmenntað stjórnarfar. Þetta er eins og einhverskonar geðveikrahæli,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. Hann á von á því borinn verði fram vantrautstillaga á ríkisstjórnina innan skamms. „Við sjáum furðulegar uppákomur eins og þegar maður gengur inn í Landsbankann með gjallarhorn og stendur uppi á borði og heimtar að fá að tala við bankastjórann. Svona hlutir eru orðnir daglegt brauð á Íslandi. Það er meira en lítið að hérna.“

Rætt var við Þór um ástandið í þjóðfélaginu og áskoranir til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag.

Þór sagði að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni ekki skila efnahagslegum ávinningi fyrir þjóðina. „Það er ávísun á enn dýpri, lengri og verri kreppu."

Hann sagði ríkisstjórnina komna að endamörkum. „Ríkisstjórnin situr bara til þess eins að sitja. Það eru að koma fram allsstaðar utan úr heimi ábendingar um það að Íslendingar séu á kolrangri leið í efnahagsmálum."

Þá sagðist Þór telja að innan skamms muni draga til tíðinda. „Það gerist ýmislegt á næstu dögum. Það er engin hætta á öðru og því fyrr því betra. Það er mjög slæmt að fara inn í restina af vetrinum með þessa ríkisstjórn með báðar hendur bundnar aftur fyrir bak og með bundið fyrir augun."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×