Lífið

Stærstu plötuútgáfur landsins í eina sæng

Steinþór Helgi og Kiddi í Hjálmum hafa flutt plötuútgáfuna Borgina undir Senu.fréttablaðið/stefán
Steinþór Helgi og Kiddi í Hjálmum hafa flutt plötuútgáfuna Borgina undir Senu.fréttablaðið/stefán

„Við munum halda áfram sömu hugsjón; að starfa fyrir listamennina okkar. Það er ekkert að fara að breytast,“ segir plötuútgefandinn og umboðsmaðurinn Steinþór Helgi Arnsteinsson.

Plötuútgáfan Borgin hefur verið lögð niður í núverandi mynd og verður í framtíðinni undirútgáfa Senu, eins og Kölskaútgáfa Barða Jóhannssonar. Baldvin Esra Einarsson mun stíga til hliðar og einbeita sér enn frekar að útgáfufyrirtæki sínu, Kimi Records, og Sena dreifir framtíðarútgáfum Borgarinnar.

Borgin gaf út fjölmargar plötur á síðasta ári sem seldust í þúsundum eintaka. Á meðal listamanna útgáfunnar eru Hjaltalín og Hjálmar sem áttu plötur á lista yfir söluhæstu plötur ársins. Steinþór segir að þótt fyrsta árið hafi gengið vel, hafi reksturinn verið erfiður. „Það er svakalega erfitt að byrja með svona fyrirtæki,“ segir Steinþór. „Reksturinn sem slíkur gekk ekki nógu vel upp, eftir á að hyggja. Kannski fórum við of geyst í þetta. Við settumst því niður, fórum yfir samstarfið og sammæltust um að það væri ekki rétt að halda áfram á sama rekstrargrundvelli.“

Steinþór segir stór verkefni fram undan hjá Borginni. Meðal annars jólaplötur frá Sigurði Guðmundssyni og Baggalúti, barnaplata frá Braga Valdimari Skúlasyni og Óttari Proppé ásamt plötu með Hjaltalín og Sinfóníuhljómsveit Íslands. „Við höfðum ekki fjármagn til að ráðast í þessi verkefni,“ segir Steinþór. Sena mun því koma að fjármögnun verkefnanna þó að nafnið og merkið verði í eigu Steinþórs og Kidda.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.