Enski boltinn

Portsmouth fyrsta úrvalsdeildarfélagið til að fara í greiðslustöðvun?

Ómar Þorgeirsson skrifar
Það er ekki bjart yfir Fratton Park-leikvanginum þessa dagana.
Það er ekki bjart yfir Fratton Park-leikvanginum þessa dagana. Nordic photos/AFP

Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að enska úrvalsdeildarfélagið Portsmouth fari í greiðslustöðvun en félagið var að vonast til þess að geta fengið inn nýja fjárfesta fyrir helgi.

Þrátt fyrir að viðræður séu enn í gangi við nokkra aðila þá er útlitið ekki bjart og líklegt að Portsmouth fari í greiðslustöðvun í dag og verði þar með fyrsta úrvalsdeildarfélagið til þess að lenda í því.

Samkvæmt reglugerð ensku úrvalsdeildarinnar verða í kjölfarið dregin níu stig af félaginu, sem situr fyrir á botni deildarinnar og er því svo gott sem dauðadæmt til þess að falla úr deildinni í lok tímabilsins.

Félagið skuldar í heildina um 60 milljónir punda en samkvæmt mati sérstaks endurskoðanda á vegum ensku úrvalsdeildarinnar þarf félagið um 25 milljónir punda til þess að halda rekstrinum gangandi út keppnistímabilið.

Umræddur endurskoðandi metur núverandi leikmannahóp Portsmouth á 23 milljónir punda en forráðamenn félagsins fóru nýlega fram á sérstaka undanþágu til þess að fá að selja leikmenn sína þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn á Englandi sé lokur.

Endurskoðandinn kvaðst í viðtali við BBC-fréttastofuna jafnframt vera steinhissa á því hvernig málum væri háttað hjá félaginu en var þó bjartsýnn á að forráðamenn félagsins myndu ná að vinna sig út úr skuldasúpunni.

„Það er alveg ótrúleg óstjórn á þessu félagi og ég kom þaðan án þess að gera mér almennilega grein fyrir því hver stýrði hvaða hluta félagsins. Ég hef samt trú á því að Portsmouth muni lifa þetta af.

Forráðamenn félagsins þurfa væntanlega að semja við lánadrottna sína og ensku úrvalsdeildina um að fá fyrirframgreiddar sjónvarpstekjur og hina svokölluðu fallhlífar aðstoð [sem félög fá þegar þau falla úr úrvalsdeildinni]," sagði endurskoðandinn Nick O'Reilly sem varaði jafnframt við þá 600 manns sem vinna fyrir Portsmouth á einn eða annan hátt að næstu mánuðir gætu reynst erfiðir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×