Innlent

Brjóstamjólkin varð græn eftir neyslu á íþróttadrykk

MYND/Vilhelm

„Ég hef aldrei séð jafn óhugnanlegan lit á móðurmjólkinni. Hún var skærgræn," segir Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræðum við Háskóla Íslands.

Ingibjörg var að keppa í blaki og hafði drukkið eina flösku af bláum Powerade fyrir leik. Hún var með barn á brjósti og mjólkaði sig því inni í búningsklefa þegar leiknum lauk. Mjólkin var þó allt annað en eðlileg á litinn. Ingibjörg lét ekki framkvæma efnagreiningu á mjólkinni og getur þar með ekki staðfest að fullu að liturinn geti verið rakinn til viðkomandi drykkjar.

Einnig eru til dæmi um marglitað þvag sem kemur eftir neyslu íþróttadrykkja á fastandi maga, sem getur verið rautt, skærgult eða heiðgrænt.

Svokölluð asó-litarefni hafa skaðleg áhrif á hegðun barna, samkvæmt breskri rannsókn. Niður­stöðurnar voru birtar í breska læknatímaritinu Lancet árið 2007, og sýndu fram á að neysla barna á litarefnum gæti stuðlað að breyttri hegðun og ofvirkni.

Asó-litarefnin eru samheiti yfir sex tegundir gervilitarefna og eru notuð í hin ýmsu matvæli. Þau voru bönnuð hér á landi um árabil en voru leyfð á ný fyrir tilstuðlan EES-samningsins árið 1997. Á síðasta ári hvöttu Neytendasamtökin Samtök iðnaðarins til þess að skipta efnunum út hið fyrsta, en viðbrögð hafa verið dræm. Brynhildur Pétursdóttir, ritstjóri Neytendablaðsins, segir efnin vera til endurskoðunar hjá Matvæla­öryggisstofnun Evrópu og nú hafi verið ákveðið að setja viðvörun á þær vörur sem innihalda eitthvað af þeim sex litarefnum sem talin eru skaðleg.

„Þetta verður innleitt hér á landi á næstu misserum, samkvæmt lögum frá Evrópusambandinu," segir Brynhildur. „Þegar einhver vafi leikur á því hvort efni séu varasöm á neytandinn að sjálfsögðu að fá að njóta vafans. Við viljum sjá þetta hverfa af markaði sem fyrst." - sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×