Innlent

Gagnrýna forgangsröðun meirihlutans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Oddvitar minnihlutans í borgarráði gagnrýna meirihlutann. Mynd/ GVA.
Oddvitar minnihlutans í borgarráði gagnrýna meirihlutann. Mynd/ GVA.
Oddvitar Sjálfstæðisflokksins og VG í borgarstjórn Reykjavíkur gagnrýna forgangsröðun í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár. Sóley Tómasdóttir, oddviti VG, fagnar fyrirhuguðum útsvarshækkunum, en Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sjálfstæðisflokki, hafnar algjörlega útsvars- og gjaldahækkunum í Reykjavík.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir að skortur á forgangsröðun valdi því t.d. að tillagan sem nú liggi fyrir feli í sér að krafist sé meiri hagræðingar af menntasviði og íþrótta- og tómstundasviði en af menningar- og ferðamálasviði og miðlægri stjórnsýslu. Það geti varla talist öflug forgangsröðun í þágu barna og ungmenna. Þá gagnrýnir hún líka hversu mikið vinnan við fjárhagsáætlunina hefur dregist.

,,Við höfum í marga mánuði gagnrýnt hversu seint meirihlutinn hefur þessa mikilvægu vinnu. Nú er sá seinagangur því miður að koma niður á gæðum þeirra lausna sem boðaðar eru. Þannig er forgangsröðun í þeim tillögum sem lagðar eru fram afar óskýr og t.d. mun meiri hagræðingarkrafa gerð á ákveðna þjónustu við börn heldur en miðlæga stjórnsýslu borgarinnar. Að auki hefur ekkert verið leitað eftir lausnum starfsfólks, en þær tillögur hafa undanfarin ár skilað okkur mjög háum fjárhæðum. Það virðist því ætla að fara, eins og við höfum haft áhyggjur af, að vandanum verður velt yfir á íbúa með stórtækum skatta- og gjaldskárhækkunum. Þetta er mjög miður og ber þess merki að fjárhagsáætlun næsta árs muni taka meira mið af þörfum kerfisins en fólksins sem í borginni býr og getur einfaldlega ekki greitt meira í skatta," segir Hanna Birna.

Hanna Birna segir að sér finnist mjög ámælisvert að núverandi meirihluti skuli ekki vilja nýta sér góða vinnu, samstöðu og reynslu liðinna missera. „Við höfum náð miklum árangri í fjármálum borgarinnar, höfum í tvígang hagrætt um verulegrar fjárhæðir án þess að hækka skatta, gjöld eða segja upp fastráðnu fólki. Auðvitað hefði mátt endurskoða ákveðna þætti þeirrar aðgerðaráætlunar, en það eru vonbrigði að meirihlutinn vilji ekki líta til þess sem vel var gert og læra af þeirri reynslu sem hefur skilað okkur afgangi á fjárhagsáætlun á þessum tíma þrátt fyrir erfiða tíma," segir Hanna Birna.


Tengdar fréttir

Útsvar hækkar í Reykjavík - varanlegar aðgerðir

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs segir viðbúið að útsvar hækki á næsta ári, en það dugi ekki eitt og sér. Hækka þurfi gjöld og skera niður. Borgarbúar verði að búa sig undir að þetta verði varanlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×