Lífið

Jakob Frímann spyrill á Lista- og ölhátíð

Búast má við hörkukeppni hjá Jakobi en dagskrá hátíðarinnar á Bar 46 er hin glæsilegasta.
Búast má við hörkukeppni hjá Jakobi en dagskrá hátíðarinnar á Bar 46 er hin glæsilegasta.

Mjög fjölbreytt dagskrá verður í boði á Lista- og ölhátíð Bar 46 á Hverfisgötu um helgina. Meðal atburða er hin víðfræga spurningakeppni staðarins og er það Jakob Frímann Magnússon Stuðbolti sem mun annast hana í tilefni hátíðarinnar.

Þá munu tvær gamlar rokksveitir snúa aftur eftir nær aldarfjórðungshlé, Þorfinnur Guðnason verður með aðra frumsýningu á nýju heimildarmynd sinni Garðarshólmi, hátt í tuttugu myndlistarmenn sýna listir sínar og leikhópurinn Peðið frumsýnir nýtt leikrit. Þá munu blaðamaður og Breiðuvíkurdrengur bjóða gestum upp á kreppusúpu.

Alls eru um 30 atriði í boði gestum til skemmtunnar og fróðleiks en hátíðin hefst á fimmtudag. Fyrir utan framangreint má nefna að stuttmyndasýningar verða í boði þar sem fimm ungir leikstjórar sýna myndir sínar. Lindy Ravers sýna dansatriði og kenna þeim sem vilja að dansa Lindy.

Rokksveitirnar sem hér um ræðir eru Melchoir, með þá Hilmar Oddsson og Karl Roth í broddi fylkingar og Kamarorghestarnir með þeim Lísu Páls útvarpskonu og eiginmanni hennar Björgúlfi Egilssyni ásamt hvalasérfræðingnum Gísla Víkingssyni og fleiri góðkunnum. Sú sveit gerði garðinn frægan í Kaupmannahöfn á árunum fyrir þjóðarsáttina á síðustu öld.

Þá eru ótalin atriði eins og bókauppboð á vegum Braga Kristjónssonar, hugleiðingar Birnu Þórðardóttur og Jóns Proppé og sveitaballastemming föstudags og laugardagskvöld. Á föstudag eru það Gæðablóð sem skemmtir en Úlfarnir á laugardagskvöldinu.

Ölkynning verður á vegum Ölgerðarinnar á laugardeginum og fastagestir efna til ballskákmóts. Að auki munu fjórir af föstustu gestunum taka lagið í kvartettnum Rakar raddir undir stjórn Tómasar Tómassonar. Einnig mun Guðjón Sigvalda sýna Tom Lehrer uppistand sitt en margir hafa beðið með óþreyju í mörg ár að heyra það að nýju.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.