Erlent

Handtökur talíbana spilla viðræðum

Fyrrverandi erindreki Sameinuðu þjóðanna í Afganistan hefur harðlega gagnrýnt handtökur pakistanskra yfirvalda á háttsettum talíbönum. Norðmaðurinn Kai Eide segir í viðtali við BBC að handtökur undanfarinna vikna á háttsettum talíbönum hafi gjörsamlega eyðilagt allar samskiptaleiðir Sameinuðu þjóðanna við talíbana og spillt fyrir friðarviðræðum sem hafnar hefðu verið.

Pakistanar þvertaka hinsvegar fyrir að ætlun þeirra hafi verið að spilla sáttaviðræðum. Í viðtalinu viðurkennir Eide í fyrsta sinn að hann hafi komið á samskiptum við háttsetta Talíbana fyrir meira en ári síðan. Þeir hafi meðal annars hist á fundum í Dubaí og víðar.

Á síðustu vikum hafa Pakistanar hins vegar handtekið tólf hátt setta menn innan hreyfingarinnar og voru margir þeirra þáttakendur í hinum leynilegu viðræðum. Eide fullyrðir því að handtökurnar hafi spillt fyrir tilraunum Sameinuðu þjóðanna til þess að koma á friði við talíbana í Afganistan. Hann fullyrðir einnig að Pakistanar hljóti að hafa gert sér grein fyrir því þegar þeir ákváðu að ráðast til atlögu við mennina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×