Innlent

Kaupþingsstjórar yfirheyrðir um helgina

Yfirheyrslur stóðu yfir þeim Hreiðari Má Sigurðssyni og Magnúsi Guðmundssyni um helgina.
Yfirheyrslur stóðu yfir þeim Hreiðari Má Sigurðssyni og Magnúsi Guðmundssyni um helgina.
Starfsmenn á vegum sérstaks saksóknara yfirheyrðu þá Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, um helgina. Magnús var jafnframt bankastjóri Banque Havilland, sem reistur var á rústum bankans ytra um mitt síðasta ár. Stjórn bankans sagði Magnúsi upp á föstudag eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði hann og Hreiðar í gæsluvarðhald.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi hvorki segja til um gang yfirheyrslna né hvort aðrir hafi verið yfirheyrðir í tengslum við meinta markaðsmisnotkun stjórnenda Kaupþings í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008.

Ólafur vildi ekki tjá sig um hvaða brot tvímenningarnir eru grunaðir. „Fyrst við erum með bankastjóra Kaupþings og bankastjóra bankans í Lúxemborg í haldi þá segir það sig sjálft að við fjöllum um samskipti þeirra,“ segir hann.

Fram kom í Fréttablaðinu á laugardag að sérstakur saksóknari myndi nýta tímann sem þeir Hreiðar Már og Magnús sitja í gæsluvarðhaldi til að yfirheyra alla þá sem taldir eru tengjast meintum lögbrotum Kaupþings. Það eru taldir vera á þriðja tug manna. Þar á meðal eru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, og Steingrímur P. Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóri áhættustýringar bankans.

Sigurður er búsettur í London en Ingólfur og Steingrímur í Lúxemborg og hafa þar rekið ráðgjafarfyrirtækið Consolium með Hreiðari Má. Þeir munu allir hafa verið boðaðir í yfirheyrslur í vikunni. Þá mun sérstakur saksóknari hafa farið fram á við Sigurð að hann flýtti komu sinni hingað til lands en hann ekki sinnt því kalli. Fréttablaðið hefur ekki náð í Sigurð þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Ólafur vildi ekkert segja til um það í gær hvort fyrrverandi bankastjórar og framkvæmdastjórar Landsbankans og Glitnis hafi verið boðaðir í skýrslutöku vegna mála sem tengjast aðdraganda bankahrunsins.

jonab@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×