Skoðun

Styð Guðmund Vigni til stjórnlagaþings 7-9-13

Hrólfur Jónsson skrifar

Þegar ég hóf störf hjá Slökkviliði Reykjavíkur 1980 var Guðmundur Vignir þegar búinn að vera starfsmaður liðsins til nokkurra ára. Fljótt tókust með okkur kynni enda á svipuðum aldri og bakgrunnurinn um margt líkur. Síðan þá höfum við Guðmundur átt margvísleg samskipti. Það hefur tengst faglegum málefnum slökkviliðsmanna, réttindabaráttu þeirra, stofnun Landssambands slökkviliðsmanna og kjarabaráttu. Seinna þegar Guðmundur var orðinn framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Þróttar, ég þá byrjaður á öðrum starfsvettvangi líka eins og Guðmundur. Og nú síðustu ár höfum við Guðmundur síðan verið samstarfsmenn á Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar.

Ég tel mig því þekkja Guðmund mjög vel, eiginleika hans og hæfileika, bæði sem samstarfsmanns, í sumum tilvikum á öndverðum meiði og eins sem félaga utan við argaþras hins daglega amsturs.

Okkur hefur alltaf tekist að hafa samskiptin opin og hreinskiptin. Það vil ég ekki síst þakka heiðarleika Guðmundar, sem kemur svo oft fram í störfum hans. En einnig því að maður getur alltaf treyst því að Guðmundur segir það sem hann meinar, en er ekki bara að segja eitthvað sem hann heldur að falli í kramið á hverju tíma. Hann er ósérhlífinn og spyr ekki þegar hann ræðst í verkefnin, „hvað skyldi nú vera í þessu fyrir mig?" heldur hugsar hann þau áfram og leitar leiða til sátta án þess þó að tapa sjónar á meginmarkmiðum og því sem hann hefur verið valinn til að standa fyrir á hverjum tíma. Og bland við sín eigin gildi. Einn af þeim eiginleikum í fari fólks sem er ekki oft minnst á og stundum jafnvel talið til veikleika, þó svo ég sé ekki þeirrar skoðunar, er góðmennska fólks. Mér finnst Guðmundur góður maður og hef ég oft reynt hann af þessum eiginleikum og lífsskoðun. Hann bregður ekki fæti né talar hann illa um annað fólk. Hann er laus við sleggjudóma og fordóma og er tilbúinn að hlusta á sjónarmið annarra.Og langrækinn er hann ekki sem er oft svo góður eiginleiki.

Mér koma því ekki á óvart þau stefnumál sem Guðmundur Vignir hefur valið sér. Full mannréttindi, jafnrétti og virkt lýðræði ásamt fleirum sem koma fram í stefnuyfirlýsingu hans. Lýðræðisást er oft meiri í orði en á borði. Stjórnmál snúast gjarnan um hið gagnstæða, að tryggja sérhagsmuni og viðtekin völd. Þessu þurfum við að breyta.

Ég verð að viðurkenna að fyrirfram hef ég ekki mikla trú á því ferli sem framundan er með stjórnlagaþingi. Að það náist sá árangur sem við vonumst til í betri stjórnarskrá til handa okkur Íslendingum. En þetta var sú leið sem valin var og fyrir liggur að verði farin. Ég ætla því að gefa þessu séns. Og þar skiptir auðvitað mestu máli hverjir veljast til verksins. Og þess vegna er ég tilbúinn til að styðja Guðmund Vigni til þessa vandasama verks. Ég vil jafnframt hvetja aðra til að taka virkan þátt, kynna sér frambjóðendur og umfram allt mæta á kjörstað þegar þar að kemur.






Skoðun

Sjá meira


×