Enski boltinn

Martinez: Dómarar á Englandi eru aðhlátursefni

Ómar Þorgeirsson skrifar
Roberto Martinez.
Roberto Martinez. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Roberto Martinez hjá Wigan er allt annað en sáttur við dómgæsluna í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi keppnistímabili.

Martinez lét skoðun sína í ljós svo eftir var tekið eftir 0-3 tap liðs síns gegn Tottenham á DW-leikvanginum um helgina og virðist dómgæslan í þeim leik hafa verið kornið sem fyllti mælinn hjá Spánverjanum.

„Ég er fyrstur til þess að viðurkenna að það er ekki auðvelt starf að vera dómari og þegar dómar eru erfiður og tæpir þá myndi ég sýna því fullan skilning.

Það sem gerðist hins vegar í opnunarmarkinu í leiknum gegn Tottenham er algjör skandall og þetta er ekki í fyrsta skipti sem dómarar klikka á lykilatriðum í leikjum okkar.

Ég skil ekki hvernig besta deild í heimi er ekki með betri dómara en raun ber vitni um og ég held að fyrir utanaðkomandi aðila séu dómarar á Englandi ekkert annað en aðhlátursefni," sagði Martinez pirraður.

Aganefnd enska knattspyrnusambandsins á eflaust eftir að eiga lokaorðið í þessu máli og knattspyrnustjórinn á án nokkurs vafa yfir höfði sér bann og hugsanlega sekt fyrir ummæli sín.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×