Innlent

Erlendir fjölmiðlar enn með hugann við Icesave

Mikið er fjallað um Icesave málið og undirskriftarsöfnun Indefence í erlendum fjölmiðlum í dag.

Á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC, kemur fram að mikil andstaða sé við samkomulagið hér á landi og ennfremur bent á að hvert mannsbarn á Íslandi þurfi að greiða 12 þúsund evrur vegna Icesave samkomulagsins. Þá er haft eftir Magnúsi Árna Skúlasyni, talsmanni Indefence hópsins, að fyrir vaxtagreiðslurnar væri hægt að reka heilbrigðiskerfið á Íslandi í hálft ár.

Danska dagblaðið Jótlandspósturinn segir í umfjöllun sinni um málið að Hollendingar og Bretar hafi beitt sér gegn lánafyrirgreiðslum til Íslands til að knýja á um lyktir málsins. Norski fréttavefurinn E24 greinir frá því að Íslendingar séu afar ósáttir við að þurfa að taka á sig skuldbindingar vegna gjaldþrots einkabanka.

Forseti Íslands fundaði með forsvarsmönnum Indefence hópsins í gær og tók þá móti undirskriftarlista með nöfnum rúmleg 56 þúsund íslendinga. Ekki liggur fyrir hvenær forsetinn ætlar að taka ákvörðun í málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×