Innlent

Lokka almenning til að breyta gengislánum í krónulán

Fjármálastofnanir reyna að lokka fólk með gengislán yfir í krónulán meðan gjaldmiðillinn er í styrkingu. Þetta segir formaður hagsmunasamtaka heimilanna sem telur vinnubrögðin svívirðileg.

Gengissveiflur krónunnar hafa mikil áhrif á virði eigna bankanna, án þess að samsvarandi áhrif komi fram á skuldahliðinni. Í nýju hefti Fjármálastöðugleika Seðlabankans segir að þetta geri bönkunum erfiðara fyrir að verja verðgildi eignasafns síns, en bókfært virði lánasafnanna rýrnar til dæmis þegar krónan styrkist á sama tíma og greiðslubyrði lánþega léttist.

Í árshlutareikningi Landsbankans kemur fram að bankinn hafi brugðist við áhættunni með því að breyta gengisbundnum lánum í krónur, en bankinn er ein þeirra fjármálastofnana sem hafa boðið upp á höfuðstólslækkun slíkra lána gegn því að lánþegar samþykki að breyta þeim í krónur. Krónan hefur verið í styrkingarferli frá áramótum, sem þýðir að greiðslubyrði gengistryggðra lána hefur lækkað og virði lánasafna bankanna rýrnað að sama skapi.

Friðrik Ó. Friðriksson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir að því fyrr sem bankarnir fái lánþega til að breyta gengistryggðum lánum í krónur á veiku gengi, þeim mun meiri gengishagnað innleysi bankarnir. Honum mislíkar að fjármálastofnanir reyni að lokka fólk yfir í krónur meðan gjaldmiðillinn er í styrkingu.

Hann bendir jafnframt á að með myntbreytingunni taki fólk þrátt fyrir höfuðstólslækkunina við lakari vaxtakjörum en með gengistryggðu lánunum, og verðbólgunni ofan á það.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í samtali við fréttastofu í gær að hann teldi bæði hag lánastofnana og lánþega að breyta erlendum lánum í krónur og draga úr gengisáhættu fyrir báða aðila








Fleiri fréttir

Sjá meira


×