Innlent

Bensínlítrinn hækkar um átta krónur

Auk hækkunar á bensín- og olíugjaldi bætist við nýr kolefnisskattur, sem er 2,60 eða 2,90 krónur á hvern lítra.Fréttablaðið/Stefán
Auk hækkunar á bensín- og olíugjaldi bætist við nýr kolefnisskattur, sem er 2,60 eða 2,90 krónur á hvern lítra.Fréttablaðið/Stefán

 Búast má við að lítraverð á bensíni muni hækka um tæplega átta krónur, og lítrinn af dísilolíu um tæpar sjö krónur þegar auknar álögur ríkisins fara út í eldsneytisverðið snemma í janúar, samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Bensíngjaldið hækkaði um 2,50 krónur á hvern lítra um áramót, og olíugjaldið um 1,65 krónur. Við það bætist nýr kolefnisskattur, 2,60 krónur á hvern bensínlítra og 2,90 krónur á hvern lítra af olíu. Að auki hækkar virðisaukaskattur úr 24,5 prósentum í 25,5 prósent.

Með hækkunum sem tóku gildi um áramót hafa álögur á eigendur meðal fjölskyldubíls hækkað um tæplega 60 þúsund krónur á einu ári, segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.

Meðalverð á bensínlítra í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð á höfuðborgarsvæðinu var rúmlega 186,6 krónur í desember. Miðað við sömu álagningu mun lítrinn hækka í um það bil 194,40 krónur eftir að hækkanirnar skila sér út í eldsneytisverðið. Dísilolía kostaði að meðaltali um 183,10 krónur á hvern lítra, en mun kosta um 190,10 krónur, segir Runólfur.

Við þessar hækkanir bætist tíu prósenta hækkun á bifreiðagjöldum, sem einnig tók gildi um áramótin. Gjöldin hækkuðu síðast um mitt síðasta ár, og hafa hækkað um samtals 21 prósent á einu ári, segir Runólfur. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×