Innlent

Öll orkan fer í að slökkva elda

Ekki kemur til greina að staðfesta ríkisábyrgð áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram þrátt fyrir að lögin sem forsetinn synjaði staðfestingar hafi formlega tekið gildi, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Fréttablaðið/Stefán
Ekki kemur til greina að staðfesta ríkisábyrgð áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram þrátt fyrir að lögin sem forsetinn synjaði staðfestingar hafi formlega tekið gildi, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Fréttablaðið/Stefán

Bresk og hollensk stjórnvöld leggja áherslu á að staða Icesave-málsins skýrist sem fyrst, en samtöl við ráðamenn þar hafa ekki breytt neinu um þá stöðu sem upp er komin í kjölfar synjunar forseta Íslands á lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Hann segir fjármálaráðherra Bretlands og Hollands hafa verið vinsamlegri í samtölum við sig en í viðtölum við fjölmiðla. Allir séu sammála um að töf á úrlausn málsins sé báðum til tjóns.

Steingrímur segir sína orku fyrstu dagana eftir ákvörðun forsetans fara í að slökkva elda. „Það er augljóst hvað [þarf að gera] núna, það er að verja landið eins og hægt er, draga úr neikvæðum áhrifum af [ákvörðun forsetans], og halda virkum stjórnmálatengslum milli Íslands, gagnaðilanna og nágrannalandanna.“

Stórskaðleg umræða fór af stað víða erlendis eftir blaðamannafund forsetans á þriðjudag, segir Steingrímur. Víða hafi fjölmiðlar talið að ákvörðun hans þýddi að Ísland ætlaði ekki að standa við sínar skuldbindingar. Með snörum viðbrögðum hafi vonandi tekist að bæta mesta skaðann.

„Að sjálfsögðu ætlum við ekki að láta þann stimpil festast á Íslandi að við ætlum ekki að axla okkar skyldur í samfélagi þjóðanna,“ segir Steingrímur.

„Það eru vonbrigði að þetta setji í óvissu þrotlaust puð síðustu mánaða við að byggja hlutina hér upp og komast áfram. Þetta setur það óneitanlega í óvissu, það verður bara að horfast í augu við það, en við gerum allt sem við getum til að áhrifin af því verði sem minnst,“ segir Steingrímur.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×