Innlent

Spáir truflunum á flugsamgöngum í áratugi vegna íslenskra eldgosa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gosið í Eyjafjallajökli hefur valdið miklum röskunum á flugsamgöngum í heiminum. Mynd/ Vilhelm.
Gosið í Eyjafjallajökli hefur valdið miklum röskunum á flugsamgöngum í heiminum. Mynd/ Vilhelm.
Mögulegt er að truflanir verði á flugsamgöngum í áratugi vegna eldgosa á Íslandi segir á vef breska blaðsins Times í dag. Blaðið vísar í orð jarðvísindamanna við Edinborgarháskóla máli sínu til stuðnings.

Blaðið segir að lítil virkni hafi verið í íslenskum eldfjöllum síðustu fimmtíu árin. Það tímabil sé nú á enda. Hefur blaðið eftir Þór Þórðarsyni, eldfjallafræðingi við Edinborgarháskóla, að vænta megi þess að þrjár eldstöðvar gjósi á Íslandi.

„Tíðni eldgosa á Íslandi virðist ganga í hring á 140 árum," segir Þór. „Á seinni hluta 20. aldar var rólegt tímabil, en nú eru vísbendingar um að við séum að nálgast hámarkið," segir Þór.

Times segir að niðurstöður hans séu í takti við hugmyndir um að gosið í Eyjafjallajökli, sem hafi haft áhrif á flugsamgöngur í Evrópu um nokkurra vikna skeið, gæti haldið áfram í marga mánuði - jafnvel ár.

Times bendir á að fyrir utan hugmyndir manna um að Katla gæti gosið, sé einnig möguleiki á gosi í Heklu, Öskju og Grímsvötnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×