Handbolti

Ingimundur: Ef við stöndum saman hef ég engar áhyggjur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd/Leena Manhart

Ingimundur Ingimundarson segir að íslenska landsliðið þurfi að spila í dag eins og það gerði í fyrri hálfleik gegn Serbum á þriðjudag.

„Ef við stöndum allir saman og spilum eins og við gerðum í fyrri hálfleik gegn Serbunum þá hef ég ekki nokkrar áhyggjur af þessu,“ sagði Ingimundur um leikinn gegn Austurríki á EM í handbolta í Linz í dag.

„Við þurfum bara að standa þetta í 60 mínútur en ekki 30 eins og við gerðum á mánudaginn.“

Sá leikmaður sem Íslendingar þurfa að hafa hvað mestar gætur á fyrir leikinn í kvöld er fyrirliðinn og leikstjórnandinn Viktor Szilagyi en hann leikur með Gummersbach í Þýskalandi.

„Ég hef oft spilað á móti honum í Þýskalandi og hann er frábær leikmaður. Hann er mótorinn í þessu liði ásamt hinum leikstjórnandanum, Vitas Ziura. Þeir eru báðir mjög fljótir og við þurfum að stöðva ákveðinn þátt í þeirra sóknarleik. Boltinn fer mikið í gegnum þá og þeir eru mjög klókir í því að finna lausan mann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×