Innlent

Æstir í lúxusinn þrátt fyrir hrunið

Ekki hefur dregið úr spurn eftir lúxusvarningi eins og skartgripum og dýrum úrum þrátt fyrir efnahagshrunið og seljast þessar vörur sem aldrei fyrr. Hjá úrsmíðameistara á Laugaveginum er langur biðlisti efitr Rolex úrum sem kosta á aðra milljón.

Morgunblaðið greindi frá því í dag að markaður fyrir lúxusvarning eins og flatskjái frá Bang & Olufsen og öðrum framleiðendum væri í mikilli sókn um þessar mundir. Það sama gildir um dýr úr af ýmsu tagi.

Frank Michelsen, úrsmíðasmeistari og umboðsaðili Rolex úra hér á landi, segist ekki skynja minni eftirspurn eftir dýrum úrum þrátt fyrir hrunið. Hann segir að salan hjá sér sé óbreytt í ákveðnum tegundum, t.d Rolex úrum sem kosta á aðra milljón króna. Frank segir að það hafi komið sér á óvart hvað eftirspurnin væri mikil þrátt fyrir hrunið. Hann segir að dýrustu vöruflokkarnir séu ekki jafn mikið keyptir, en Rolex virðist hafa haldið sínum hlut. Stöðug eftirspurn sé eftir Rolex úrum.

Og á árinu 2010 virðist vera nóg af fólki á Íslandi sem er tilbúið kaupa sér úr sem kostar meira en milljón. Margir líti jafnframt á þetta sem fjárfestingu. Frank segist jafnframt selja mikið af úrum til útlendinga og sumir þeirra komi hingað til lands í þeim eina tilgangi að kaupa Rolex þar sem framboðið erlendis sé takmarkað. Dæmi eru um að útlendingar komi hingað í þeim eina tilgangi að kaupa úr og Frank segist hafa afgreitt viðskiptavini sem hafi flogið hingað að morgni, keypt úr, fengið skattinn endurgreiddan hjá Tax-Free og flogið aftur út um kvöldið.

Sjá viðtal við Frank Michelsen í myndskeiðinu hér fyrir ofan.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×