Innlent

Svifryksmengunin í dag jafn mikil og á gamlárskvöldi

Svifryksmengunin á höfuðborgarsvæðinu er slík að hún jafnast á við það sem mælist á gamlárskvöldi samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Þá mun svifryksmengunin örugglega fara yfir heilsuverndarmörk í dag.

Síðasta hálftímann í dag, það er að segja á milli 15:30 og 16:00 mældust 1490 míkrógrömm á rúmmetra í loftinu.

Ástæðan fyrir miklu svifryki er askan í kringum Eyjafjallajökul en þar hefur ekkert rignt sem aftur verður til þess að askan fýkur víða. Þá er mikið öskufok á Hvolsvelli.

Mengunin hefur hinsvegar engin áhrif á flugsamgöngur að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Isavia, sem Vísir ræddi við fyrr í dag.

Ástæða er til að benda þeim á sem eru með viðkvæm öndunarfæri s.s. lungnasjúkdóma eða astma að forðast mikla útiveru í dag og ef til vill á morgun - en líkur eru á betri loftgæðum á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×