Fótbolti

Allt í góðu á milli Drogba og afríska knattspyrnusambandsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba.
Didier Drogba. Mynd/AFP
Didier Drogba á ekki í lengur í deilum við afríska knattspyrnusambandið og segir það myndi vera mikill heiður ef hann væri valinn besti knattspyrnumaður Afríku fyrir árið 2009.

Drogba var valinn besti knattspyrnumaður Afríku árið 2006 en missti titilinn árið eftir þar sem hann neitaði að mæta á verðlaunaafhendinguna sem var í Malí. Frederic Kanoute fékk verðlaunin í staðinn en þau voru afhent í miðri Afríkukeppni sem fram fór í Gana.

Drogba óskaði þess í kjölfarið að hann kæmi ekki lengur til greina fyrir þessi verðlaun en eftir góðan fund með forráðamönnum afríska knattspyrnusambandsins er komið annað hljóð í kappann.

„Þetta mál tilheyrir fortíðinni. Við settumst niður og ræddum málin og það er allt í góðu núna," sagði Didier Drogba. „Þetta eru góð verðlaun og það er mikill heiður fyrir leikmann að fá þau," sagði Drogba.

Didier Drogba kemur til greina sem Besti knattspyrnumaður Afríku 2009 en hann er tilnefndur ásamt þeim Michael Essien og Samuel Eto'o.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×