Innlent

Þjóðin kýs um hvort lögum verður breytt

Friðrik Már Baldursson
Friðrik Már Baldursson

Innan tíðar verða lög um breytingar á ríkisábyrgð vegna Icesave borin undir þjóðina til synjunar eða samþykktar. Þar fær hún tækifæri til að taka afstöðu til þess hvort þær breytingar sem Alþingi gerði á fyrri lögum um málið, sem samþykkt voru í september, verði grundvöllur samninga við Breta og Hollendinga.

Atkvæðagreiðslan gengur þannig ekki út á hvort eigi að greiða skuldbindingar vegna Icesave, heldur hvernig þeim greiðslum verður háttað og hvaða fyrirvarar gilda um þær.

Lögfræðingurinn Helgi Áss Grétarsson skrifaði greinargerð sem fylgdi breytingartillögunum. Þar fór hann yfir mismun á ákvæðum viðaukasamninga breytingartillagnanna og ákvæðum laganna frá því í september. Þar sem kjósendur taka afstöðu til breytinganna í þjóðaratkvæðagreiðslunni tók Fréttablaðið saman það helsta úr greinargerð Helga Áss.

Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar HR, segir í raun eitt atriði standa upp úr fyrirvörum fyrri laganna, þegar kemur að greiðsluákvæði; greiðslutíminn. Hann telur litlar líkur að komi til þess að taka þurfi afstöðu til meðferðar eftirstöðva eftir árið 2024. Mikið þurfi að gerast til að lánið verði ekki að fullu greitt þá. Hann segir það að mörgu leyti vafamál hvað í raun sé verið að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Björg Thorarensen, deildarforseti lagadeildar HÍ, segir lagalega fyrirvara fyrri laganna vera víðtæka, þeir hafi verið mjög afdráttarlaus skilyrði ríkisábyrgðar. Samningunum hafi verið breytt, en hluti fyrirvaranna hafi komið fram í viðaukasamningum og hluti í lögunum sem forsetinn neitaði að undirrita. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×