Handbolti

Arnór: Spenntur fyrir mínu hlutverki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Arnór Atlason í æfingamótinu í Frakklandi um helgina.
Arnór Atlason í æfingamótinu í Frakklandi um helgina. Mynd/AFP
Arnór Atlason verður líklega í byrjunarliði íslenska landsliðsins þegar það mætir því serbneska í fyrstu umferð riðlakeppninnar á EM í handbolta í Austurríki.

„Þetta verður þrusuerfiður leikur og afar mikilvægur. Framhaldið á mótinu ræðst að miklu leyti af fyrsta leiknum. Við þurfum því að vera 100 prósent klárir," sagði Arnór eftir æfingu íslenska landsliðsins í keppnishöllinni í Linz í gær.

Arnór sagði það einnig gott að vera loksins kominn til Austurríkis eftir að hafa farið bæði til Þýskalands og Frakklands á meðan undirbúningnum fyrir mótið stóð.

„Það væsir ekki um okkur hér og mér líst afar vel á allar aðstæður. Við erum líka farnir að finna mjög vel taktinn í landsliðinu og teljum okkur vera á því stigi undirbúningsins sem við eigum að vera á."

Nokkuð hefur verið rætt um stöðu vinstri skyttunnar í landsliðinu, allra helst vegna meiðsla Loga Geirssonar.

„Ég er spenntur fyrir mínu hlutverki á mótinu. Það verður undir mér komið að leysa þessa stöðu í liðinu og það er það sem ég vil. Ég vona þó að bæði Logi og Aron [Pálmarsson] séu klárir til að taka hana að sér á móti mér. Ég finn að líkaminn minn er klár fyrir átökin framundan og ég veit líka að ég er líka vel undirbúinn fyrir þau."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×