Innlent

Bankar hugsanlega bótaábyrgir vegna myntkörfulána

Höskuldur Kári Schram skrifar

Bankar og æðstu stjórnendur þeirra geta orðið bótaábyrgir gagnvart neytendum fari svo að Hæstiréttur fallist á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæti myntkörfulána.

Þetta er mat talsmanns neytenda en hann birti greinagerð þessa efnis um síðustu áramót. Þar varar hann lánastofnanir við að innheimta greiðslur af gengistryggðum lánum á meðan uppi séu spurningar um lögmæti þeirra.

Mikil lagaleg óvissa ríkir um myntkörfulán eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu á föstudag að slík lán væru ólögmæt.

Málinu hefur verið áfrýjað til hæstaréttar en félagsmálaráðherra vill að málið fái flýtimeðferð til að eyða óvissu sem fyrst.

Í greinargerð sinni telur talsmaður Neytenda líklegt að neytendur geti krafist bóta frá bönkum og æðstu stjórnendum komist hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gengistryggð lán hafi verið ólögmæt.

Vísar hann í því samhengi á skaðabótalög og áttugustu og sjöttu grein laga um nauðungarsölu en þar segir: Hafi gerðarbeiðandi krafist nauðungarsölu sem síðar er leitt í ljós að skilyrði skorti til - ber honum að bæta allt tjón sem aðrir hafa beðið af þeim sökum.

Neytendur þannig vísað til tjóns vegna innheimtu, fjárnáms og þvingunaraðgerða sem byggðar eru á ólögmætum forsendum og krafist bóta.

Lánastofnanir og stjórnendur þeirra gætu því átt von á fjölmörgum skaðabótamálum fallist hæstiréttur á niðurstöðu héraðsdóms.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×