Innlent

Við erum komin að þolmörkum velferðarkerfisins, segir Jóhanna

Fjárlagagerð næsta árs mun taka gríðarlega á ekki síst vegna þess að við erum komin að þolmörkum þess sem velferðarkerfið þolir, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í umræðum um stöðu efnahagsmála á Alþingi í dag.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagði ríkisstjórnina hafa farið langt fram úr umsömdum skattahækkunum en frestað erfiðum aðhaldsaðgerðum. Þessvegna biði okkar hrikalegur niðurskurður í ríkisfjármálunum á þessu ári og því næsta, sem ríkisstjórnin hefði ekki svarað hvernig ætti að útfæra.

Bjarni sagði ríkisstjórnina bregða fæti fyrir atvinnuuppbyggingu.

"Nú fer atvinnuleysisskrímslið að rísa upp úr sjó og stara í augu við menn hér í þinginu. Við verðum að fara að grípa til aðgerða fyrir fólkið í landinu," sagði Bjarni.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vitnaði til nýrrar spár Seðlabankans um dýpri kreppu ef stórframkvæmdir tefðust. Spáin gerði ráð fyrir fimm prósenta samdrætti í ár, í stað þriggja prósenta, ef stórframkvæmdir tefðust frekar, og að atvinnuleysi yrði tveimur prósentum meira en annars hefði orðið.

"Við megum því ekki við frekari töfum ef við ætlum að hnekkja hrakspánum, eins og við gerðum í fyrra," sagði Jóhanna.

Hún viðurkenndi þann vanda sem stjórnin stæði frammi fyrir í ríkisfjármálum, sem myndi taka gríðarlega á við fjárlagagerðina á næsta ári.

"Ekki síst vegna þess að við erum komin að þolmörkum þess sem velferðarkerfið þolir," sagði Jóhanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×