Innlent

Íslendingafélög í útrýmingarhættu

Erla Hlynsdóttir skrifar
Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn stendur alltaf fyrir viðburðum á 17. júní
Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn stendur alltaf fyrir viðburðum á 17. júní Mynd: Eggert Jóhannesson
Starf Íslendingafélaga í Danmörku er í mikilli lægð ef marka má dræma mætingu á aðalfundi þeirra. Aðeins tíu manns mættu á aðalfund Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn sem haldinn var í gær. „Það er betri mæting á fundi prjónafélagsins," segir Sigurður Einarsson, formaður félagsins, heldur vonsvikinn.

Vísir sagði frá því í gær að Íslendingafélagið í Árósum hafi verið lagt niður eftir að aðeins einn mætti á aðalfundinn, auk fráfarandi stjórnar. Þau endalok voru til umræðu á fundinum í Kaupmannahöfn. „Þetta sýnir bara áhugaleysi Íslendinga. Fyrir tíu, tólf árum var fullt út úr dyrum í Jónshúsi. Nú spjallar fólk bara saman á Netinu," segir hann.

Hann bendir á að Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn hafi meira að segja þurft að aflýsa síðasta þorrablóti vegna lélegrar þátttöku. Þá var búið að skipuleggja og auglýsa þorrablót en hætt var við að halda það þar sem aðeins um tugur manns hafði staðfest mætingu.

Prjónaklúbburinn Garnaflækjan hittist reglulega í Jónshúsi í Kaupmannahöfn og er félagslífið þar öllu blómlegra en hjá Íslendingafélaginu. Eftir því sem Sigurður kemst næst mættu um tuttugu manns á síðasta fund prjónafélagsns sem eru því helmingi fleiri en á aðalfund Íslendingafélagsins.

Sigurður ætlar þó ekki að láta þetta á sig fá og mun félagið halda áfram að skipuleggja viðburði fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn, svo sem hátíðarhöld á þjóðhátíðardaginn.

Hann tekur einnig fram að mikil þátttaka hafi verið í bingói sem félagið hélt um páskana. „Þá var alveg fullt út úr dyrum," segir Sigurður sem vonast til að fleiri taki þátt í starfi félagsins á komandi vetri.



Heimasíðu félagsins má skoða með því að smella hér.




Tengdar fréttir

Íslendingafélagið í Árósum lagt niður

Það var ákveðið eftir aðalfund Íslendingafélagsins í Árósum í gær (ÍSFÁN) að leggja félagið niður. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins mætti aðeins einn aðili á fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×