Innlent

Nánast enginn munur á lægstu launum og bótum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Vinnumálastofnunar, segir að lægstu laun verði að hækka. Mynd/ Stefán.
Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Vinnumálastofnunar, segir að lægstu laun verði að hækka. Mynd/ Stefán.
Eitt af þeim vandamálum sem ráðgjafar og vinnumiðlarar Vinnumálastofnunar standa frammi fyrir er að lítill eða enginn munur er á lægstu launum og atvinnuleysisbótum, segir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Vinnumálastofnunar. Ársfundur Vinnumálastofnunar er haldinn í dag. Í setningarræðu sinni segir Runólfur að það sé í reynd lítill eða enginn efnahagslegur hvati að því að vinna á lægstu launum umfram það að þiggja bætur. Hvort sem um sé að ræða atvinnuleysis- eða örorkubætur.

„Þessi staðreynd er samfélagslegt vandamál sem nú grefur undan því vinnusiðferði sem áratugum saman hefur einkennt íslenskt samfélag. Nú ber ekki að túlka orð mín á þá vegu að bæturnar séu of háar. Því fer víðs fjarri. En launin eru allt of lág. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að sammælast um að hækka lægstu launin upp fyrir bætur en fyrst og síðast þurfum við sem samfélag á nýjum vel launuðum störfum að halda," segir Runólfur. Hann segir að með sköpun nýrra starfa og einungis þannig vinnum við okkur út úr kreppunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×