Innlent

Loðnukvóti líklegast gefinn út

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Niðurstöður mælinga benda til þess að loðnukvóti verði gefinn út á næsta ári. Mynd/ Óskar P. Friðriksson.
Niðurstöður mælinga benda til þess að loðnukvóti verði gefinn út á næsta ári. Mynd/ Óskar P. Friðriksson.

Magn ungloðnu er mun meira en mælst hefur í mörg ár, samkvæmt mælingum Hafrannsóknarstofnunar. Þessar niðurstöður leiða líklega til þess að ráðlagður verði upphafskvóti fyrir vertíðina 2011/2012.



Hafrannsóknastofnunin hefur staðið fyrir umfangsmiklum leiðangri rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar umhverfis landið sem einnig nær til grænlenskrar lögsögu. Í þessum leiðöngrum hafa verið sameinuð þrjú rannsóknaverkefni, þ.e. stofnmæling botnfiska að haustlagi, loðnumæling og mælingar á ástandi sjávar.



Samkvæmt tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun kom Bjarni Sæmundsson til hafnar í Reykjavík þann 21. október síðastliðinn, en Árni Friðriksson er ekki væntanlegur fyrr en um eða eftir aðra helgi þar sem útbreiðsla loðnustofnsins hefur verið meiri en gert var ráð fyrir í upphafi. Aðstæður til mælinga hafa yfirleitt verið góðar og mjög lítill ís verið á rannsóknasvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×