Innlent

Stakk ekki blóðugum fingri í munn lögregluþjóns

Valur Grettisson skrifar
Lögreglumenn. Myndin er úr safni.
Lögreglumenn. Myndin er úr safni.

Karlmaður var sýknaður í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur af því að hafa stungið blóðugum fingri í munn lögregluþjóns. Maðurinn sem var ákærður fyrir hættulegt brot á sóttvarnarlögum, reyndist vera smitaður af lifrabólgu C.

Það var í maí á síðasta ári sem lögreglan var kölluð að heimili mannsins vegna þess að maðurinn hefði hótað nágranna sínum með sverði. Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að er lögreglumenn knúðu dyra á íbúð mannsins hafi hann komið út í glugga og neitað að hleypa þeim inn.

Lögreglan sparkaði þá hurðina upp. Þegar inn kom var ekkert sverð sjáanlegt og neitaði maðurinn að vísa á það. Hann var í annarlegu ástandi og virtist vera undir áhrifum lyfja eða fíkniefna.

Nágranninn vísaði á „sverðið", sem reyndist vera hnífur, í skúffu í eldhúsi.

Granninn upplýsti að maðurinn hefði átt í einhverjum útistöðum við nágranna sína. Lögreglan tók þá eftir því að maðurinn var með áverka á fingri en það blæddi úr löngutöng hægri handar.

Þegar lögreglumaðurinn spurði manninn hvort hann hefði slasað sig brást hann hinn versti við, reis á fætur og átti að hafa sett fingurinn í andlit og upp í munn lögreglumannsins.

Lögreglumaðurinn var blóðugur á vinstri kinn og fann að auki fyrir blóðbragði í munni.

Maðurinn neitaði alfarið sök. Báðir lögreglumennirnir gátu ekki fullyrt að fingurinn hefði farið upp í munninn á lögreglumanninum. Dómurinn útilokar ekki að blóðið hafi borist í munn lögreglumannsins þegar maðurinn strauk fingri sínum um andlit hans.

Var hann því sýknaður.

Þess má geta að lögreglumaðurinn smitaðist ekki af lifrabólgu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×