Innlent

Gefur lítið fyrir rökstuðning

Ögmundur Jónasson skipaði í starf skrifstofustjóra sjávarútvegsráðuneytisins þar sem Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra var vanhæfur í málinu. Geir Oddsson auðlindafræðingur íhugar að skjóta málinu til Umboðsmanns Alþingis.
Ögmundur Jónasson skipaði í starf skrifstofustjóra sjávarútvegsráðuneytisins þar sem Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra var vanhæfur í málinu. Geir Oddsson auðlindafræðingur íhugar að skjóta málinu til Umboðsmanns Alþingis.
Einn umsækjenda um starf skrifstofustjóra auðlindaskrifstofu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins gefur lítið fyrir rökstuðning dómsmálaráðherra fyrir ráðningu fyrrum aðstoðarmanns ráðherra í starfið.

„Mér finnst þessi rökstuðningur ekki merkilegur, og augljóst að þetta eru eftirárök,“ segir Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Þrettán sóttu um starfið, og var Jóhann Guðmundsson, fyrrverandi pólitískur aðstoðarmaður Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, meðal umsækjenda. Vegna þessa var Jón vanhæfur til að skipa í stöðuna og Ögmundi Jónassyni dómsmálaráðherra falið það hlutverk. Hann taldi Jóhann hæfastan og skipaði hann í stöðuna, sem er tímabundin til tveggja ára.

Geir fór fram á rökstuðning ráðherrans fyrir því að hæfasti maðurinn hefði verið ráðinn til starfans. Í svari frá dómsmálaráðuneytinu, sem sent er fyrir hönd ráðherra, kemur fram að þrír umsækjendur hafi verið metnir hæfastir, og þeir kallaðir til viðtals. Jóhann og Geir voru báðir í þeim hópi.

Í rökstuðningnum segir meðal annars að Jóhann hafi það umfram aðra umsækjendur að þekkja til starfa Stjórnarráðsins og starfa skrifstofustjóra innan þess. Þá þekki hann til starfa auðlindaskrifstofu ráðuneytisins.

Þar segir enn fremur að það þyki styðja þá ákvörðun að ráða Jóhann að hann þekki starfsemi ráðuneytisins og geti því hafið störf af fullum krafti „innan skamms“.

Geir gerir athugasemdir við þennan rökstuðning og íhugar nú að leita til umboðsmanns Alþingis vegna málsins. Hann segir það til dæmis stinga í stúf að því sé haldið til haga að Jóhann geti sett sig hratt inn í starfið, þegar ráðningar­ferlið hafi tekið hátt í þrjá mánuði. Þetta fari ekki saman. Ef legið hafi á að skipa í stöðuna hefði ferlinu verið hraðað.

Þá gerir Geir alvarlegar athugasemdir við að reynsla Jóhanns af sjávarútvegsmálum sé metin sambærileg við aðra umsækjendur. Jóhann hafi innan við tveggja ára reynslu af sjávarútvegsmálum, en sjálfur hafi hann 23 ára reynslu af sjávarútvegi og fiskveiðistjórnun. Reynslan sé því ekki samanburðar­hæf, og sama megi örugglega segja um aðra umsækjendur.

„Það er erfitt að sjá annað en að einhvers konar pólitík hafi blandast inn í málið, sama hvað menn segja,“ segir Geir. „Miðað við það sem hefur verið að gerast hér á landi undanfarin misseri kom þetta mér á óvart.“

brjann@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×