Innlent

Fleiri vilja Dag heldur en Hönnu Birnu

Fleiri vilja að Dagur B. Eggertsson verði borgarstjóri en Hanna Birna Kristjánsdóttir, ef marka má niðurstöður könnunar sem Capacent vann fyrir Samfylkinguna. Dagur nýtur meira fylgis hjá konum.

Ljóst er að kosningabaráttan í borginni fer harðnandi en Samfylkingin lét gera könnunina á tímabilinu 18.-27.mars síðastliðinn.

Um netkönnun var að ræða en úrtakið var 1961, handahófsvaldir úr Viðhorfshópi Capacent Gallup. Spurt var: „Hvort vilt þú frekar að Dagur B. Eggertsson eða Hanna Birna Kristjánsdóttir verði borgarstjóri á næsta kjörtímabili?"

Tilviljunarkennt var hvort þeirra var nefnt á undan í spurningunni og hvort þeirra var fyrir ofan í svarmöguleikum.

1057 tóku afstöðu og af þeim vilja 46,4% að Hanna Birna verði frekar borgarstjóri en 53.6% vilja frekar að Dagur gegni embættinu. Þegar horft er til kynja þá nýtur Dagur meira fylgis hjá bæði körlum og konum, en 57% kvenna vilja frekar að Dagur verði borgarastjóri.

Kosið verður til borgarstjórnar í Reykjavík þann 29.maí næstkomandi en allt útlit er fyrir að sjö flokkar verði í framboði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×