Fótbolti

Þrír „Frakkar“ fá leyfi frá FIFA til að spila með Alsír á HM í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Alsír.
Stuðningsmenn Alsír. Mynd/AFP
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur gefið þremur fyrrum unglingalandsliðsmönnum Frakka leyfi til þess að spila með alsírska landsliðinu á HM í Suður-Afríku í sumar. Þetta kemur sér vel fyrir Alsírbúa þar sem margir landsliðsmanna þeirra eru meiddir.

Habib Belaid, Ryad Boudebouz og Mohamed Chakouri léku allir með yngri landsliðum Frakka en þeir hafa tvöfalt ríkisfang. FIFA hefur gefið þeim leyfi að spila en er enn að meta beiðni alsírska knattspyrnusambandsins um að fá að nota Carl Medjani sem var á sínum tíma hjá Liverpool.

Habib Bellaid er 23 ára varnarmaður sem spilar með Boulogne í Frakklandi, Ryad Boudebouz er tvítugur miðjumaður sem spilar með FC Sochaux í Frakklandi og Mohamed Chakouri er 23 ára varnarmaður sem spilar með R. Charleroi S.C. í Belgíu.

Carl Medjani er 24 ára miðvörður sem spilar nú með Ajaccio í frönsku b-deildinni en hann var í herbúðum Liverpool frá 2003 til 2006 án þess að leika með aðalliði félagsins.

Alsír er í riðli með Englandi, Slóveníu og Bandaríkjunum á HM í sumar. Þetta er fyrsta heimsmeistarakeppni þjóðarinnar síðan þeir komust á HM í Mexíkó og enduðu þar í 22. sæti. Fjórum árum áður hafði Alsír slegið í gegn á HM á Spáni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×