Innlent

Gas finnst í borkjörnum af Drekasvæðinu

Vottur af gasi hefur fundist í borkjörnum sem teknir voru í sumar á botni Drekasvæðisins. Sendinefnd íslenskra stjórnvalda hefur undanfarna tvo daga fundað í Osló með norskum stjórnvöldum, meðal annars um skattalöggjöf, til að undirbúa næsta olíuútboð Íslendinga.

Fyrsta olíuútboð Íslendinga í fyrra skilaði engu leitarleyfi en aðeins bárust tvær umsóknir sem á endanum voru báðar dregnar til baka. Reynslunni ríkari undirbúa stjórnvöld nú næsta útboð sem áformað er að hefjist eftir níu mánuði.

Sex manna sendinefnd hefur í gær og í dag fundað í Osló með norskum stjórnvöldum um tilhögun útboðsins. Samningur ríkjanna kveður á um samráð enda er um gagnkvæman 25% nýtingarrétt þjóðanna að ræða í lögsögu hvors annars á Jan Mayen-hryggnum.

Skattasérfræðingar frá fjármálaráðuneyti og ríkisskattstjóra eru með í för til að leita ráða hjá Norðmönnum um breytingar á íslensku olíuskattalöggjöfinni en talsmenn olíufélaga fullyrtu í fyrra að hún hefði dregið úr áhuga á útboðinu.

Hluti undirbúningsins felst í frekari rannsóknum á Drekasvæðinu en hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson tók í sumar borkjarnasýni af hafsbotninum. Þau hafa nú verið rannsökuð í Noregi og að sögn Þórarins Sveins Arnarsonar hjá Orkustofnun fannst vottur af gasi sem gæti átt upptök sín neðar í jarðlögum. Þórarinn segir þessa niðurstöðu þó ekki bæta neinu við þá þekkingu sem þegar er fyrir hendi um svæðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×