Lífið

Fær 13 milljónir í Hamborg

AndriSsnær er á leið til Hamborgar.
Tekur þar við Kairos-verðlaununum fyrir framan tólf hundruð manns.
fréttablaðið/stefán
AndriSsnær er á leið til Hamborgar. Tekur þar við Kairos-verðlaununum fyrir framan tólf hundruð manns. fréttablaðið/stefán

Óhætt er að segja að það hafi hlaupið á snærið hjá Andra Snæ Magnasyni því á sunnudaginn tekur hann við Kairos-verðlaununum í Hamborg. Verðlaunaféð er 75.000 evrur - ríflega 13 milljónir íslenskra króna. En fyrir hvað eru þessi verðlaun eiginlega, Andri, bara fyrir það hvað þú ert æðislegur?

„Í megindráttum, já," segir Andri og hlær. „Ég var að velta því alvarlega fyrir mér um daginn að kannski væri maður búinn að dreifa sér um of. Búinn að skrifa leikrit og skáldsögur og ljóð og þar að auki orðinn leikstjóri. Og búinn að taka þátt í alls konar hliðarverkefnum. Ég var að hugsa um að þessi fjölbreytni væri manni kannski ekki til framdráttar. Akkúrat þá kom bréfið frá Kairos þar sem meginástæðan fyrir því að ég fæ þessi verðlaun er tiltekin sú hvað ég hef beitt mér á mörgum sviðum og verið á samfélagsmálasviðinu líka með Draumalandinu. Þeir voru búnir að skoða ferilinn alveg í rótina og rannsaka mig gaumgæfilega. Nefndu í umsögn til að mynda diskinn Raddir sem ég stóð að fyrir mörgum árum. Þetta eru ekki beint bókmenntaverðlaun heldur verðlaun fyrir listræna afstöðu."

Mikil dagskrá er í kringum verðlaunaafhendinguna í Borgarleikhúsinu í Hamborg. Emilíana Torrini kemur fram og þeir Páll á Húsafelli, Hilmar Örn Hilmarsson og Steindór Andersen. „Þetta er eiginlega hálf ótrúlegt. Það verða 1.200 manns í salnum og eins og hálfs tíma dagskrá bara um mig og minn feril. Ég er með vægar hjartsláttatruflanir út af tilstandinu. Ég er bara að skrifa þakkarræðuna og spá í hverju ég á að vera í. Ætli ég haldi ekki teinótta merkinu á lofti."

Og hvað svo? Sigurhátíð í Smáralind?

„Hahaha. Já, klukkan þrjú á mánudaginn. Fyrir þá sem komast ekki út á völl."

Andri Snær segist vera með tvær nýjar bækur í bígerð og hann og Þorleifur Örn Arnarson hafa skrifað óbeint framhald af millistjórnendadramanu Eilíf hamingja sem var sett upp 2007. „Við settum okkur hálfgerðar Frúin í Hamborg-reglur þegar við skrifuðum þetta. Það er bannað að segja útrás, Icesave, stjórnmálamaður og græðgi í leikritinu. Þau orð eru bönnuð. Við erum spenntir að sjá hvernig þetta kemur út. Það er stefnan að frumsýna í lok mars." drgunni@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.