Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mál fimmtu stúlkunnar sem karlmaður er grunaður um að hafa tælt í gegnum Facebook. Hún var þrettán ára þegar meint kynferðisbrot mannsins gegn henni átti sér stað.
Mál þriggja stúlkna, sem maðurinn er grunaður um að hafa nauðgað eftir að hafa komist í kynni við þær á Facebook, eru komin til ákæruvaldsins. Mikið magn af barnaklámi hefur fundist í tölvubúnaði sem lögregla tók hjá manninum á sínum tíma, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Barnaklámsmálið hefur einnig verið sent til ákæruvaldsins.
Maðurinn, sem situr í gæsluvarðhaldi til 3. mars, var í fyrstu talinn hafa tælt þrjár stúlkur á aldrinum þrettán til fjórtán ára til að hitta sig eftir að hafa komist í kynni við þær á Facebook, með ofangreindum afleiðingum.
Kæra vegna fjórðu stúlkunnar sem maðurinn er grunaður um að hafa tælt barst nokkru seinna og nú hefur fimmta kæran borist eins og áður sagði. L
ögregla rannsakar meðal annars hvort maðurinn hafi beitt tvær síðastnefndu stúlkurnar kynferðislegu ofbeldi, en vitað er að hann náði að hitta þær báðar. - jss