Handbolti

Snorri: Hef góða tilfinningu fyrir leiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd/Diener/Leena Manhart

Snorri Steinn Guðjónsson segir að það sé margt jákvætt í stöðunni fyrir leik Íslands og Danmerkur á EM í handbolta í kvöld.

Með sigri kemst Ísland áfram í milliriðlakeppnina sem sigurvegari riðilsins og með þrjú stig í farteskinu.

„Við erum þó að fara að spila við Dani og þeir eru ekkert léttmeti í boltanum. Við höfum þó sýnt góða takta á þessu móti. Sóknarleikurinn hefur verið frábær og við höfum leyst allar varnir sem við höfum fengið á móti okkur.“

„Við þurfum því að halda uppteknum hætti því þetta kemur ekki að sjálfu sér. Ef við náum aðeins að þétta varnarleikinn þá erum við í hrikalega góðum málum. Við skoruðum 37 mörk gegn Austurríki en eigum samt hraðaupphlaupin inni. Það gefur manni líka smá von.“

Ísland missti unninn leik í jafntefli bæði gegn Serbum og Austurríki en Snorri hefur ekki áhyggjur að vonbrigði þeirra leikja hafi slæm áhrif á leikmenn í kvöld.

„Ef við myndum falla í þá gryfju að velta okkur upp úr öllu því neikvæða værum við búnir að dæma okkur úr leik fyrirfram. Ég held að við eigum að koma dýrvitlausir til leiks og gefa allt sem við eigum. Við sjáum svo hvað það skilar okkur.“

„Ég hef haft góða tilfinningu fyrir báðum okkar leikjum til þessa og hef líka góða tilfinningu fyrir leiknum gegn Dönum. Ef við þéttum varnarleikinn og höldum uppteknum hætti í sókninni þá held ég að við vinnum Dani.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×