Innlent

Vill þingkosningar

Sigmundur Davíð. Formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja ganga til kosninga sem fyrst þegar uppgjöri eftir bankahrunið verður lokið.
Sigmundur Davíð. Formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja ganga til kosninga sem fyrst þegar uppgjöri eftir bankahrunið verður lokið. Mynd/Stefán Karlsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vill ganga til kosninga sem fyrst þegar uppgjöri eftir bankahrunið verður lokið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er sömu skoðunar og segir að ríkisstjórnin þurfi að fara frá því hún standi í vegi fyrir uppbyggingu og framförum í landinu.

Sigmundur Davíð segir að með réttu hafi verið bent á að sá órói sem fylgi kosningum geri mönnum erfitt fyrir að stjórna við erfiðar aðstæður. „Það voru sterk rök fyrir því að bíða með kosningar en óháð óróa er staðan hinsvegar þannig núna að þessi ríkisstjórn ræður ekki við ástandið. Þar af leiðandi er betra að fara í gegnum nokkrar vikur af uppgjöri fyrir kosningar ef það verður til þess að meiri festa næst í stjórnmálin," segir formaðurinn.

Aftur á móti telur Sigmundur Davíð að erfitt sé að boða til kosninga núna. Hann bendir á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé nýkomin út og leiða þurfi ákveðin mál til lykta, til að mynda þurfi þingmannanefndin sem ætlað er að meta viðbrögð við skýrslunni að ljúka sínum störfum. Á hinn bóginn segir Sigmundur Davíð að ekki sé hægt bíða lengi eftir því að festa komist á hlutina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×