Innlent

Glæsilegar sigurmyndir í tunglmyrkvakeppni

Sigurmynd Sveins Bjarka Brynjarssonar.
Sigurmynd Sveins Bjarka Brynjarssonar.

Tæplega sjö hundruð myndir bárust í keppni Fréttablaðsins og Vísis um bestu ljósmyndina af tunglmyrkvanum í gærmorgun.

Sveinn Bjarki Brynjarsson, sextán ára Árbæingur, bar sigur úr býtum og var sigurmyndin birt á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Myndina tók hann í garðinum heima hjá sér í Selási. Að eigin sögn þurfti hann marga tugi tilrauna til að ná almennilegri mynd, enda er myndin tekin á tíma og má sjá Svein sjálfan í forgrunni hægra megin.

Í bítið á Bylgjunni hringdi í Svein Bjarka í morgun og ræddi við hann um sigurinn eins og heyra má hér fyrir ofan. Hann hlýtur í verðlaun glæsilega Sony NEX myndavél frá Sony Center í Kringlunni.

Annað sætið hlaut Steingrímur Árnason, fyrir glæsilega mynd af tunglinu ásamt verkinu Björgun eftir Ásmund Sveinsson. Í þriðja sætinu hafnaði Ingólfur Bjargmundsson, fyrir mynd þar sem litir tungslins og rafmagnsmasturs við álverið í Straumsvík njóta sín til fullnustu. Myndir þeirra eru birtar hér fyrir neðan og í meðfylgjandi myndasafni. Steingrímur og Ingólfur fá báðir leikhúsmiða í verðlaun.

Í dómnefnd sátu Anton Brink, ljósmyndari á Fréttablaðinu og Vísi, Einar Skúlason, kynningarstjóri Fréttablaðsins og Vísis, Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins og Tinni Sveinsson, vefstjóri Vísis.

Fréttablaðið og Vísir þakka öllum þeim sem sendu inn myndir í þessa skemmtilegu keppni.

Sjá má fleiri af úrvalsmyndum keppninnar í meðfylgjandi myndasafni.

Steingrímur Árnason hafnar í öðru sæti í samkeppninni fyrir þessa mynd sem hann kallar Tunglbjörgun. Hér sést bjargvætturinn úr verki Ásmundar Sveinssonar við Ægisíðu, Björgun, teygja sig í átt að rauðleitu tunglinu.
2. SÆTI

Steingrímur Árnason hafnar í öðru sæti í samkeppninni fyrir þessa mynd þar sem bargvætturinn úr verki Ásmundar Sveinssonar við Ægisíðu, Björgun, virðist teygja sig í átt að rauðleitu tunglinu.

Þriðja sætið hlaut Ingólfur Bjargmundsson. Upplýst rafmagnsmastur við álverið í Straumsvík rammar inn mánann í þessari mynd hans. Ingólfur var á ferðinni þennan morgun og tók fleiri myndir sem komust í úrvalshópinn.
3. SÆTI

Upplýst rafmagnsmastur við álverið í Straumsvík rammar inn mánann í þessari mynd Ingólfs Bjargmundssonar. Ingólfur var á ferðinni í gærmorgun og tók fleiri myndir, sem sjá má í myndasafninu yfir bestu myndir keppninnar.

Sigurmyndin er eftir Svein Bjarka Brynjarsson, sextán ára Árbæing. Myndina tók hann í garðinum heima hjá sér í Selási. Að eigin sögn þurfti hann marga tugi tilrauna til að ná almennilegri mynd, enda er myndin tekin á tíma og má sjá Svein sjálfan í forgrunni hægra megin.
Bróðir í trúnni. Mykola Khyzhnyak tók þessa mynd sem rétt missti af verðlaunasæti. Á turni Fríkirkjunnar situr kúla sem líkist litla bróður mánans.
Perla á himni. Það er engu líkara en að tunglið ætli að tylla sér á þak Perlunnar á þessari mynd Ingólfs Bjargmundssonar, sem var nálægt verðlaunasæti.
Óðinn Árnason tók þessa mynd þar sem borgarljósin kallast á við tunglið.
Runólfur Hauksson er höfundur þessarar jólalegu myndar þar sem tunglið tyllir sér fyrir ofan burstabæ.
Ágúst Sigurjónsson er höfundur þessarar myndar.
Jóhann Jóhannsson náði mynd af rauðleitu tunglinu og Hallgrímskirkjuturni.
Ingi Rúnar Gíslason er höfundur þessarar dulúðlegu myndar af rauðleitu tunglinu sveipuðu skýjahulu.
Grímur Óli Geirsson náði góðri nærmynd af tunglinu þar sem hægt er að rýna í yfirborðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×