Erlent

Sautján ára gömul stúlka grunuð um að hafa sprengt sig

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stúlkan sem grunuð er um ódæðið. Mynd/ AFP.
Stúlkan sem grunuð er um ódæðið. Mynd/ AFP.
Sautján ára gömul ekkja uppreisnarmanns frá Kákasus er grunuð um að vera önnur þeirra sem sprengdu sig í loft upp á neðanjarðarlestarstöð í Moskvu á mánudagsmorgun. Tvær sprengjur sprungu með skömmu millibili með þeim afleiðingum að 39 fórust og meira en 70 særðust. Flestir hinna særðu eru enn á spítala.

Breska fréttastofan BBC hefur það eftir talsmanni rússnesku lögreglunnar að stúlkan, sem hét Dzhennet Abdurakhanova, hafi verið gift íslömskum hryðjuverkamanni sem rússneska leyniþjónustan banaði rétt fyrir síðustu áramót. Lögreglumaðurinn sagðist ekki geta staðfest að umrædd stúlka væri sú sem hefði sprengt sig. Ljósmynd af stúlkunni sem birtist í rússneska blaðinu Kommersant, virðist hins vegar benda til þess að um hana sé að ræða segir fréttaritari BBC í Moskvu.

Talið er að stúlkan sé sú sem sprengdi sprengjuna í Lubyanka en sú sprengja varð 20 manns að bana, að þvi er fram kom í Kommersant. Ekki er búið að bera kennsl á konuna sem sprengdi hina sprengjuna.

Stúlkan var frá héraði í Dagestan, á Kákasussvæðinu, sem er staðsett rétt við landamærin að Chechnya. Talið er að hún hafi farið til Moskvu með rútu ásamt hinni sprengjukonunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×