Innlent

Spúir 200 tonnum af jarðvegi á sekúndu - öskufall talsvert

Gosið er mjög kröftugt þessa daganna.
Gosið er mjög kröftugt þessa daganna. Mynd Guðmundur Svavarsson

Um tvöhundruð tonn af jarðvegi koma upp úr gígnum úr Eyjafjallajökli á sekúndu samkvæmt stöðumati Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Sprengigos hefur haldist undanfarna daga og gjóskufalls hefur gætt á Norðausturlandi auk þess sem einhver útbreiðsla hefur verið til vesturs síðdegis.

Tilkynningar um öskufall hafa komið frá Hrauneyjum þar sem bílar urðu svartir vegna öskufallsins, Hæli í Gnúpverjahreppi, Laugum í Suður-Þingeyjasýslu, Felli í Vopnafirði og í Neskaupstað en á þessum stöðum var um lítilsháttar öskufall að ræða.

Auk þess sást þunn slikja á Sandhólatindi og Bjólfi sem eru fjöll norðan Seyðisfjarðar. Svifryk mældist í Reykjavík um miðjan dag og má rekja það til foks.

Á áttunda tug eldinga hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá miðnætti og fram á miðjan dag. Hátt í 10 á klukkustund fram að hádegi en heldur færri eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×